Í hugum flestra eru jólin tími friðar, gleði og góðra samskipta.
Á jólum eiga allir að njóta þess besta sem við getum leyft okkur, við sendum kveðjur og gefum oft gjafir og hlustum í söng og lestri á boðskap um gleði og frið.
Jólin eru því andstaða algengrar líðan margra, s.s. spennu, óróleika og kvíða, dapurleika, sorgar og leiða og ekki síst togstreitu af öllu tagi milli fólks. Jól og aðrar hátíðir gefa okkur tækifæri til að staldra við, skoða stöðu okkar og leggja rækt við það sem er okkur kærast. Jólin veita okkur tækifæri til þess að sýna kærleik og vera hans aðnjótandi.
Væntingar og fyrirfram mótaðar hugmyndir um jólin
Vandinn við allar væntingarnar sem tengjast jólum er sú sýn sem við höfum á samskipti okkar við aðra. Fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvernig hlutirnir eiga að vera og verða að vera vegna þess hvar við ólumst upp og svo hvernig samfélagið hefur mótað okkur í tímans rás.
Sýn sem mótast af eigin þörfum okkar, eins og t.d. þörfin fyrir að vera elskuð eða elskaður, eða þörfin fyrir að flestu fólki líki við okkur.
Jólakvíðinn er ekki til kominn vegna þess að við óttumst óraunhæfar kröfur um að allt eigi að vera fínt og flott á yfirborðinu. Heldur vegna þess að okkur finnst erfitt að horfast í augu við okkur sjálf. Með öðrum orðum – innri tiltekt á sér ekki stað . Getum kannski spurt okkur; hvað er það í mínu fari sem veldur því að mér líður svona? Hverju get ég breytt? Við höldum of oft í það gamla þekkta jafnvel þótt það valdi innri sársauka. Erum oftar en ekki að fara eigin leiðir, sem mótast af lærðu hegðan okkar í æsku en óttumst allt nýtt og óþekkt sér í lagi á álagstímum.
Jólareglurnar og nýjar og gamlar hefðir í bland
En aðrar reglur gilda um jólin. Þá eru flestir sammála um að reyna hafa það sem best. Í þessu skyni er mörgum málum ýtt til hliðar. Þar sem skilnaður er yfirvofandi, atvinnuleysi, húsnæðisvandi blasir við er vilji til að fresta flestu fram yfir jól. Pakka vandanum inn og geyma fram yfir þrettánda dag jóla.
Ágreiningur innan fjölskyldu er settur til hliðar og menn reyna að finna friðsamlegan flöt á samskiptunum. Í stað þess óróleika sem kann að vera í sálinni reynir fólk að efla með sér hugarró og kærleiksþel.
Ef við gerum raunhæfar kröfur til okkar sjálfra í jólaundirbúningnum og setjum markið ekki of hátt verða verkin létt og skemmtileg.
Þennan tíma getum við líka notað til að minna okkur á hvað okkur er mikilvægt í lífinu og þá um leið að rækta samband við þá sem okkur þykir vænt um.
Er hugsanlega núna tækifærið til að brjóta odd af oflæti sínu og leysa úr gömlum flækjum. Flækjur, sem engu máli skipta lengur – og gerðu það kannski aldrei – og endurheimta þannig glötuð vináttu- og ættartengsl.
Margir ná að breyta þeytingi aðventunnar yfir í kyrrðarstund með góðri tónlist eða góðum bókum.
Flestum tekst þetta vel. Jólin ná að laða fram það besta og minna okkur á hvað það er sem skiptir hverju okkar mestu máli.
í minningu Percy B. Stefánsson,
Einn af stofnendum Lausnarinnar og fyrrverandi ráðgjafi
kt. 541015-1320
Ármúla 40 (3. hæð)
108 Reykjavík
Hafnarstræti 97, 5 hæð
600. Akureyri
Fjölheimum
Tryggvagötu 13
Allur réttur áskilinn | Lausnin fjölskyldumiðstöð ehf.