Öll eigum við rödd innra með okkur sem hefur trú á okkur - lítið hvísl á bak við öll lætin, eins konar friðarhöfðingja. Síðan er það önnur rödd, dómarinn, sem hefur skoðun á öllu, vill aldrei hafa gaman og er yfirleitt hræddur og uppáhaldsorðin hans eru „já en“ og „hvað ef?“.
Dómarinn þolir heldur ekki að vera í núinu. Hann vill bara að hafa áhyggjur af framtíðinni eða velta sér upp úr fortíðinni og minna mann á allt sem var óþægilegt eða það sem maður skammast sín fyrir. Dómarinn vill ráða öllu og hann á eina bestu vinkonu sem heitir fullkomnunarárátta. Fullkomnunaráráttunni finnst eins og dómaranum ekkert skemmtilegt heldur vill hún bara halda áfram og áfram og áfram.
Maður byrjar í sakleysi sínu kannski að þurrka af einu borði og þá byrjar hún „ það þarf líka að ryksuga, og fara í gegnum skápana og þrífa inni á baði“. Þó að maður elti hana og geri allt sem hún biður mann um þá finnur hún ný verkefni og þú getur treyst því að hún er aldrei til í að setjast niður og slappa af. Það er skammvinn ánægjan af því að elta hana.
Það er svokölluð árangurstengd gleði og hún varir svo stutt af því maður verður að halda áfram. Það að elta þessar raddir gerir mann algjörlega örmagna. Friðarhöfðinginn hvíslar á bak við: „Ætlaðir þú ekki bara að þurrka af einu borði? Sjáðu hvað er fallegt úti, viltu ekki taka utan um barnið þitt?“
Áreitið er svo mikið og streitan orðin svo mikil og við náum ekki að stoppa. Það sem er svo merkilegt með streituna er að þegar hún kemur þá kallar hún á meiri streitu, hún vill ekki vera ein í þessu partýi. Á þeim tímapunkti er maður farin(n) að anda grunnt, farin(n) að mikla allt fyrir sér og nær ekki að byrja á neinu. Sá sem ætlar að þrífa finnst eins og hann þurfi að þrífa allt húsið og fær sig ekki til að byrja heldur hringir í vin eða leigir mynd.
Heilinn er hannaður til að gera einn hlut í einu í rólegheitunum með friðarhöfðingjanum. Þar er maður við stjórn og með fulla meðvitund í núinu. Ef þig langar að hætta að hlaupa á eftir þeim röddum sem ekki eru að þjóna þér á neinn hátt þá er fyrsta skrefið að verða meðvitaður um þær, velja að lækka í þeim. Þær mega vera eins konar bakgrunnshljóð en eiga ekki að ráða neinu.
Ein góð einföld æfing er að finna góða minningu fyrir 12 ára aldur, horfa á þessa litlu manneskju sem maður var og leyfa sér að staldra við og gleðjast yfir því hvað maður er dýrmætur og á allt gott skilið. Góðar minningar tengja mann við gleði og frið, þær róa hugann og lækka í þeim röddum sem við erum að hlaupa á eftir eins og hamstur í hjóli.